„Inscreen“ er dautt! Af hverju við breyttum úr „Inscreen“ í „viewable Impressions“

Í gegnum tíðina hefur oft borist í tal að leggja niður hugtakið „inscreen“ í Airserve og taka í staðinn upp „Viewable impressions”. Nú höfum við látið verða af því.

Hörður Harðarson

12. janúar 2023

Þetta er hvorki mikil né flókin breyting, en hún hefur bara ekki verið aðkallandi því nánast allur íslenski markaðurinn hefur notað Airserve hugbúnaðinn okkar til að hýsa, birta og mæla birtingar á vefborðum og því þekkja allir notendur „inscreen” hugtakið.  Því var ekki ákall eftir þessari breytingu.

En hvers vegna erum við þá að gera þessa breytingu?

Breytingin úr „inscreen” í „viewable impressions”

Þann 12. Janúar 2023 skiptum við frá því að nota hugtakið í Airserve yfir í „viewable impressions”. Bæði hugtökin vísa til þess sama, en „viewable impressions” er staðlaða hugtakið um sýnileika vefborða, sem skilgreindur er af International Advertising Bureau (IAB). Þetta leiðir eðli málsins samkvæmt til þess að hætt verður að tala um „inscreen ratio“ (ISR). Í staðinn verður talað um „viewability”.

Við notuðum upphaflega „inscreen“ þegar við settum Airserve á markað 2014 því IAB og þeirra staðlar voru ekki orðnir allsráðandi eins og þeir eru í dag og enn var verið að vinna í stöðlun á stærðum, ferlum og hugtökum. 

Öll aðferðafræði Airserve fylgir stöðlum varðandi stærðir og meðferð á tölfræði og því er rétt að klára þessa breytingu. Einnig höfum við orðið vör við áhuga erlendis frá fyrir Airserve og ætlum á árinu að kynna kerfið fyrir aðilum í Evrópu.

Notkun á stöðlum

Notkun staðlaðra hugtaka er mikilvæg til að tryggja samræmi í greininni og til að koma í veg fyrir rugling á mismunandi hugtökum sem öll hafa sömu merkingu. IAB setti fyrst „viewable impressions” sem staðal 2014 og viðmiðin fyrir sýnileika fela í sér að að minnsta kosti 50% af auglýsingunni verða að vera sýnileg í að minnsta kosti eina sekúndu. Þetta gefur auglýsendum betri hugmynd um hversu árangursrík auglýsing þeirra er og gerir þeim kleift að meta betur árangur birtinga og herferða á vefnum.

Breytingin

Við erum sannfærð um að þessi breyting verður notendum ekki þungbær þó líklegt sé að um nokkurt skeið muni margir tala um „inscreen” í staðinn fyrir „viewable impressions” 🙂

Þetta er fyrsta, og líklega minnsta breytingin, sem stendur fyrir dyrum. Á komandi vikum munum við kynna fleiri og umfangsmeiri breytingar. Breytingar sem einfalda vinnu þeirra sem nota Airserve, bæta birtingu allrar tölfræði og minnka líkur á svokölluðum mannlegum mistökum.

Við göngum spennt inn í nýtt ár og getum ekki beðið eftir að gleðja notendur okkar með viðbótum og úrbótum.

Gleðilegt ár frá starfsfólki Overcast

PS. Hvað er The International Advertising Bureau (IAB)

The International Advertising Bureau (IAB) er alþjóðleg sjálfseignarstofnun sem setur staðla fyrir stafrænar auglýsingar. IAB var stofnað árið 1996 og vinnur að því að stuðla að vexti stafrænna auglýsinga. Auk þess að staðla hugtök og mælingar vinna samtökin að þjálfun og aukinn fagmennsku meðal þeirra sem starfa við stafrænar auglýsingar.

IAB þróar staðla, fylgist með framþróun og nýjungum, heldur námskeið og vinnur með öðrum fagsamtökum sem geta haft hag af stafrænum auglýsingum.